Um Kalda

Bruggsmiðjan Kaldi var stofnuð árið 2006 af hjónunum Agnesi og Ólafi.

Agnes & Ólafur á opnun Bruggsmiðjunar í september 2006.

Eftir að Ólafur slasaði sig illa á hné árið 2003, eftir um 26 ár sem sjómaður, þá stóð hann frammi fyrir því að hafa enga atvinnu í sínum heimabæ Árskógssandi, þar sem allt snýst um fiskinn. Eftir um 2 ár þar sem þau hjónin reyndu hvað þau gátu að finna ný verkefni, en ekkert virtist ganga, þá sér Agnes frétt á RÚV í júní 2005. Í þeirri frétt var fjallað um auknar vinsældir svokallaðra Micro-Brugghúsa, og tekið var viðtal við bruggara og eiganda slíks brugghúss í Danmörku. Á þessum tímum voru engin slík brugghús á Íslandi, eingöngu tvö fjöldaframleiðslu brugghús, Vífilfell og Ölgerðin. Agnes ólst upp við það að föðuramma hennar hafði mikið dálæti af vatninu okkar hér í bænum og var vön að segja að við ættum "besta vatn í heimi!", Við það að sjá þessa frétt kviknaði þessi stórfurðulega hugmynd: Stofnum brugghús!

Eftir að hafa sannfært Ólaf um að skoða málið tóku þau slaginn og drifu sig til Danmerkur viku seinna, þar var jú eina tengingin þeirra við slíka framleiðslu, ókunnugi daninn úr sjónvarpinu. Danski bruggarinn gaf þeim góð ráð og benti þeim oft á hversu mikil gæði væru í kringum tékkneskan bjórstíl og hráefni. Tékkland er frægt um allan heim fyrir góðan og einstaklega vandaðan bjór.

Þessi ferð fyllti þau innblæstri og sáu Agnes og Ólafur gott tækifæri á að koma með nýja tegund af bjór á markaðinn.

Þeim langaði í vandaðan bjór með miklu bragði og varð því bjór eftir tékkneskri hefð frá 1842 fyrir valinu.

Það voru í boði tvær leiðir, kaupa uppskrift af öðrum erlendum bjór eða fá bruggmeistara til liðs við sig svo þau gætu sniðið bjórinn eftir sínum eigin hugmyndum.

Þau fóru seinni leiðina og komust í samband við David Masa í gegnum bruggtækja framleiðandan Paul Holborn, en hann er bruggmeistari frá Tékklandi. David er bruggmeistari í 4 ættlið og með 9 ára nám á bakinu, m.a. grunn bruggmeistaranám sem er 4 ár. Hann hefur sérhæft sig í því að koma af stað litlum brugghúsum út um allan heim.

Ólafur, David & Agnes í Tékklandi 2016.

 

Í október sama ár skrifa þau undir kaupsamninga á bruggtækjum út í Tékklandi og í desember var Bruggsmiðjan formlega stofnuð.

Uppsetning á 380 fm húsi byrjaði í mars 2006 og er það staðsett á Árskógssandi.

Árskógssandur er aðeins 12 km frá Dalvík og 35 km frá Akureyri.

Fyrsta bruggun var 22 ágúst 2006 og fyrsta átöppun var 28 september sama ár.

Formleg opnun var síðan 30 september 2006.

 

Markmiðið var að búa til eðal bjór og þá var einungis valið besta hráefnið sem völ er á og því kemur allt frá Tékklandi, á móti er notað okkar Íslenska vatn sem kemur úr lind í Sólarfjalli, við utanverðan Eyjafjörð.

Útkoman er Kaldi; Íslenskur bjór, bruggaður eftir Tékkneskri hefð, ógerilsneyddur, engin viðbættur sykur og án rotvarnarefna.

 Kaldi bjór

Til að byrja með var gert ráð fyrir ársframleiðslu upp á 160.000 lítra á ári, en eftirspurnin var meiri en búist var við og var fljótlega ákveðið að bæta við gerjunartönkum og auka gerjunarplássið um 12.000 lítra. Sú stækkun kom í maí 2007. Með þeirri stækkun var framleiðslugetan 300.000 lítrar á ári.

Sú stækkun dugði ekki lengi til og var gerjunarplássið stækkað um 12.000 lítra í nóvember 2008.

Árið 2011 var verksmiðjan stækkuð um helming og öll átöppunarvélin færð yfir í nýja húsið. Ásamt því var bætt við tönkum og því var aukið gerjunarplássið um 12.000 lítra.

Bætt var við öðrum 12.000 lítrum árið 2014.

2015 var 50 fm viðbygging bætt við fyrir gerjunartanka, 12.000 lítrum bætt við, ný sía fyrir bruggarana okkar og kútavél sem sparar okkur mikinn tíma.

Fyrir 2016 er á áætlun að  byggja u.þ.b 280 fm vöruskemmu og er framleiðslugetan okkar orðin 700.000 lítrar.

Í dag er Kaldi með 10 tegundir á markað, en eru fimm af þeim árstíðabundnar. Yfirbruggari Kalda í dag er Sigurður Bragi Ólafsson,

Á árinu 2015 og byrjun 2016 voru bruggaðar 10 nýjar tegundir sérbjóra frá Kalda, sem voru bara seldar í kútum, og hefur sú nýjung vakið mikla lukku. Það má nefna tegundir eins og IPA (India Pale Ale, humlaríkur bjór), Barley wine, Belgískan Tripel og Imperial Pilsner.

Bruggsmiðjan Kaldi 2016. 

 

Allar upplýsingar um bjórana eru hér.

Í dag starfa 12 starfsmenn í Bruggsmiðjunni.